Í rannsóknarverkefninu um námslistmeðferð (AET) sem kynnt er í þessum fyrirlestri er námsefni fléttað inn í listmeðferð með það að markmiði að stuðla að tilfinningalegri velferð og auðvelda nám. Kenningar varðandi „skrifmyndir“ eru skoðaðar í fyrirlestrinum. Hugtakið „skrifmyndir“ vísar til teiknaðra mynda af bókstöfum og tölustöfum, sem eru hluti af aðferðum námslistmeðferðar.
Á tilteknu þroskastigi teikna mörg börn bókstafaform áður en þau öðlast þekkingu á hljóðfræði og þeim táknum sem mynda bókstafina í stafrófinu. Þetta skeið kallast „skrifmyndaskeiðið“. Í fyrirlestrinum eru kynntar leiðir til að vinna með „skrifmyndir“ með það að markmiði að endurheimta, styrkja og varðveita þann lærdómsgrunn sem lagður var á skrifmyndastiginu. Samhliða því er tilfinningaleg tjáning gegnum listsköpun skoðuð frá sjónarhorni listmeðferðar. Í fyrirlestrinum er lögð áhersla á mikilvægi þess að veita skrifmyndum barna athygli. Einnig er fjallað um hagnýta þætti skrifmynda með tilliti til meðferðar og náms. Mikilvægt er að þátttakendur hafi haft einhver kynni af listmeðferð og námslistmeðferð, til dæmis með því að sækja fyrirlestra og/eða grunnnámskeið í listmeðferð og námslistmeðferð.
Í fyrirlestrinum er fjallað um grunnþætti námslistmeðferðar. Í námslistmeðferð er bóklegt nám samþætt listmeðferð með það að markmiði að styrkja tilfinningalegt heilbrigði og efla námsgetu. Tekin eru dæmi sem veita innsýn í aðferðir og hugmyndafræði meðferðarinnar. Fyrirlesturinn er ætlaður öllum sem hafa áhuga á námslistmeðferð, þar með talið foreldrum og fagfólki sem vinna að bættri líðan og auknum þroska fólks og/eða því að auðvelda einstaklingum nám. Æskilegt er að þátttakendur hafi grunnþekkingu á listmeðferð.
„Fyrirlesturinn var upplýsandi, „eye opener“. Gefinn var ákveðinn vonarneisti varðandi börn í framtíðinni sem eiga við námsörðugleika að stríða, von um að litið verði á námsörðugleika þeirra frá öðru sjónarhorni og að þau muni eiga greiðari aðgang að hjálp.“
„Mér finnst samþætting listmeðferðar og náms, eins og kynnt var í fyrirlestrinum, virkilega áhugaverð og mjög þörf í skólakerfinu. Því er nauðsynlegt að innleiða þessa aðferð þar sem hún yrði mikill stuðningur við einstaklinginn, kennarann og allt skólakerfið.“