Langar þig að efla sköpunargáfu þína og skjólstæðinga þinna? Viltu skilja hvernig hugsanir og tilfinningar eru tjáðar með listsköpun? Óskar þú eftir að afla þér upplýsinga um hvernig mögulegt er að auka styrk og bæta líðan með myndsköpun? Langar þig að auka skilning þinn og þekkingu á myndmáli?
Námskeiðið er ætlað öllum áhugasömum um listmeðferð, þar með töldum einstaklingum sem hafa hug á að læra og starfa við listmeðferð. Námskeiðið nýtist einnig fagfólki sem óskar eftir að öðlast aukinn skilning á listsköpun með það að markmiði að stuðla að bættri líðan og auknum þroska skjólstæðinga og/eða nemenda sinna.
Á námskeiðinu öðlast nemendur innsýn í grunnhugtök og aðferðir listmeðferðar í gegnum fyrirlestra, lestur, verkefnavinnu, umræður og vinnustofu þar sem þátttakendur taka þátt í sköpunarferli og upplifa þá möguleika sem það býður upp á. Þekking á eigin myndmáli eykur sjálfsmeðvitund og möguleika á að koma öðrum til hjálpar þegar vandi steðjar að. Á námskeiðinu eru kynntar myndsköpunaraðferðir sem efla sköpunargáfu, styrkja sjálfsmynd, mynda tengsl, efla sjálfsþekkingu og bæta líðan. Ekki er gerð krafa um að þátttakendur þekki til myndlistar eða hafi reynslu af listsköpun.
Fös. 29. september 16:00-19:00
Lau. 30. september 11:00-16:00
Fös. 13. október 16:00-19:00
Lau. 14. október 11:00-16:00
Vinsamlegast hafið samband með tölvupósti á netfangið unnur@unnurarttherapy.is til að fá frekari upplýsingar.
„Þekkingin frá námskeiðinu hefur nýst mér vel í gegnum tíðina í vinnu minni með börnum og unglingum og gerir enn. Ég lærði að skilja að það væri undirliggjandi mikilvæg tjáning í myndverkum barnanna og unglinganna sem ég vinn með. Fræðslan og reynslan af námskeiðinu hefur nýst mér vel til að skilja alls konar merkja- og táknmál í myndverkum.
Skilningurinn á myndverkunum hefur í sumum tilfellum opnað umræðu sem ég hef getað miðlað til annars fagfólks. Ég hef til dæmis getað miðlað því sem börnin hafa tjáð í myndunum á teymisfundum með öðru fagfólki.
Stundum eru skýr skilaboð í myndum barnanna. Myndlistarkennari og aðrir starfsmenn eru í kjöraðstæðum til að öðlast skilning á aðstæðum og líðan einstaklinganna í gegnum myndverkin. Mér fyndist æskilegt að námskeiðið væri hluti af kennaranámi. Ég væri fyrsta manneskjan til að fara á framhaldsnámskeið í listmeðferð.“
„Það sem þú komst með til okkar sem á námskeiðinu voru var tækifæri til að stoppa, skoða, yfirfara og endurhugsa. Nærvera þín veitti okkur frelsi til að vera, akkúrat þarna á þeirri stundu bara vera, sem aðeins virðing gagnvart manneskjunni og trú á möguleika hennar getur veitt. Þú gafst okkur umgjörð og við féllum held ég allar inn í hana án ótta við að verða dæmdar. Það sem við lærðum um listmeðferð og innsýn inn í þann heim er ómetanlegt fyrir mig. Að veita fólki sem er tilbúið að sjá lykla að þeirri veröld stækkar möguleika okkar til að vinna úr og veita stuðning fyrir okkur sjálf og aðra. Þú ert frábær kennari, Unnur, og vonandi fæ ég tækifæri til að hitta þig aftur bráðum og upplifa og læra meira og meira og meira.“