Viðtal sem Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson tóku við Unni Óttarsdóttur í Ríkisútvarpinu í Mannlega þættinum 22. maí 2023.
Listmeðferð er sálræn meðferð þar sem hluti tjáningar, samtals og úrvinnslu fer fram í gegnum listsköpun skjólstæðings í tengslum við listmeðferðarfræðing.
Markmið listmeðferðar er að stuðla að bættri líðan, auknum persónulegum þroska, styrk, sköpunarkrafti, jafnvægi, sjálfsþekkingu, sjálfstrausti, félagsfærni og jákvæðum breytingum í lífi þess sem sækir meðferðina.
Listsköpun í listmeðferð er sjálfsprottin og frjáls og getur hún tjáð innri heim einstaklingsins; tilfinningar hans, hugsanir og reynslu. Hvorki er gerð krafa um þekkingu né færni í listum. Myndræn tjáning getur í mörgum tilfellum, betur en orð, tjáð flóknar tilfinningar, hugsanir og minningar. Einstaklingur sem glímir við vanda, tilfinningar og hugsanir færir þau verkefni út fyrir sjálfan sig yfir í myndverkið sem gerir viðfangsefnið sýnilegt og áþreifanlegt. Þessi eiginleiki listsköpunarinnar ásamt táknmálinu sem í henni birtist gefur einstaklingnum tækifæri til að tjá og skoða viðfangsefnin og tengdar tilfinningar úr viðráðanlegri fjarlægð sem auðveldar nálgun og úrvinnslu viðkvæmra tilfinninga og reynslu. Myndverkið endurspeglar sálarlíf einstaklingsins sem eykur sjálfsþekkingu hans, jafnvægi og sátt. Frumkvæði, sjálfstæði, sköpunargleði og geta til að finna skapandi lausnir virkjast í gegnum myndsköpun.
Hornsteinar listmeðferðar eru sambandið á milli listmeðferðarfræðings og skjólstæðings ásamt sköpunarferlinu. Listmeðferðarfræðingurinn leitast við að hlusta, sýna skilning og aðstoða skjólstæðinginn við að skoða myndverkin, vandann og viðfangsefnin í samhengi við aðra þætti án þess að dæma. Listsköpunin sem fer fram innan meðferðarsambandsins er kærkomin nálgun þar sem mögulegt er að skoða vandann í gegnum listsköpunina frá viðráðanlegri fjarlægð. Á þann hátt skapast öryggi sem verður til þess að einstaklingurinn getur treyst meðferðaraðilanum fyrir tilfinningum sínum, hugsunum, reynslu, gleði, sigrum, ótta og hugarórum. Meðferðarsambandið stuðlar að bættri líðan, öruggari tengslamyndun, félagsfærni, sjálfsþekkingu, persónulegu innsæi, sátt, jafnvægi og styrk.
Umgjörð listmeðferðar felur í sér að listmeðferðarfræðingurinn, sem er bundinn þagnarskyldu, býður upp á öruggt meðferðarrými þar sem næði ríkir. Skjólstæðingurinn skuldbindur sig sömuleiðis til að sækja meðferðina yfir ákveðið tímabil. Öruggur staður, regluleg meðferð í ákveðinn tíma, trúnaður, hlustun, viðhorf og viðmót listmeðferðarfræðingsins miðar að því að einstaklingurinn upplifi það öryggi sem þarf til úrvinnslu tilfinninga og reynslu.
Í mörgum tilvikum ræðir einstaklingurinn um listsköpun sína við listmeðferðarfræðinginn. Í samtölum um listina myndast tenging á milli myndrænnar hugsunar án orða og þess að tjá myndefnið með orðum. Þegar tenging myndast milli mynda og orða getur einstaklingurinn oft virkjað áður ónýtta eiginleika innra með sér sem eykur möguleika hans á að sjá viðfangsefnin og vandann frá víðara sjónarhorni. Þess konar samspil mynda og orða gefur í mörgum tilfellum ráðrúm til að finna lausnir og vinna með þær.
Listmeðferð hentar einstaklingum á öllum aldri sem hafa til dæmis orðið fyrir áföllum eða eiga við tilfinningalega, andlega og/eða geðræna erfiðleika, fatlanir eða líkamleg veikindi að stríða. Einstaklingar eiga í mörgum tilvikum auðveldara með að tjá flóknar tilfinningar, hugsanir og minningar með myndmáli fremur en talmáli. Þar sem stór hluti tjáningarinnar í meðferðinni er án orða hentar hún einstaklega vel fyrir börn og einstaklinga sem af einhverjum ástæðum hafa skertan málþroska. Meðferðin hentar einnig öllum þeim sem vilja vinna með tilfinningar sínar og reynslu ásamt því að þroska sjálfa sig í gegnum listræna tjáningu.
Einstaklingar sem leita til listmeðferðarfræðings glíma til að mynda við erfiðleika vegna:
Menntun listmeðferðarfræðinga er á háskólastigi og samanstendur af kenningum um listsköpun, sálfræði-/sálgreiningarkenningum, reynslu og þekkingu á eigin listsköpun sem og úrvinnslu eigin tilfinninga og reynslu. Í flestum tilfellum stunda nemendur í listmeðferð persónulega meðferð. Hluti námsins felur í sér starfsþjálfun undir handleiðslu reynds listmeðferðarfræðings, sálfræðings eða geðlæknis.
Listmeðferðarfræðingar vinna með einstaklingum, hópum og fjölskyldum á margvíslegum stöðum, svo sem í grunnskólum, á sjúkrahúsum, í fangelsum, á einkastofum, með öldruðum, á listasöfnum og á Stígamótum. Einnig er boðið uppá fjarlistmeðferð á veraldarvefnum.
Viðtal sem Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson tóku við Unni Óttarsdóttur í Ríkisútvarpinu í Mannlega þættinum 22. maí 2023.
Viðtal sem Leifur Hauksson tók við Unni Óttarsdóttur í Ríkisútvarpinu í Samfélaginu 27. febrúar 2020.
Viðtal sem Gunnar Hansson tók við Unni Óttarsdóttur í Ríkisútvarpinu í Mannlega þættinum 28. nóvember 2018.
Viðtal sem Andri Freyr Viðarsson tók við Unni Óttarsdóttur í Ríkisútvarpinu Stöð 2 í Síðdegisútvarpinu 22. nóvember 2018.
Viðtal sem Haukur Már Helgason tók við Unni Óttarsdóttur fyrir Kvennalblaðið 22. nóvember 2018
Viðtal sem Birna Pétursdóttir tók við Unni Óttarsdóttur í Ríkisútvarpinu í þættinum Sögur af landi 26. nóvember 2017
Viðtalið „Spegill sálarinnar” sem Unnur Jóhannsdóttir tók við Unni Óttarsdóttur fyrir tímaritið Vikuna 14. nóvember 2000. 46. tölublað, 63 árgangur bls. 10-12.