Listmeðferð Unnar

Listmeðferð fyrir börn og unglinga

Listmeðferð fyrir börn og unglinga

Hefur þú áhyggjur af barni eða unglingi sem þú berð umhyggju fyrir? 

Sköpunin, ásamt því öryggi sem myndast í meðferðarsambandinu, hefur hjálpað fjölda barna og unglinga til að öðlast aukna vellíðan, finna styrk og lifa í aukinni sátt og samlyndi við sjálfa sig og aðra. Bætt líðan einstaklingsins skilar yfirleitt meiri námshæfni, bættri hegðun, auk þess sem tengslin við fjölskyldu og vini verða árangursríkari, ánægjulegri og auðveldari.

Ummæli

Móðir 11 ára drengs sem var í 18 tíma listmeðferð vegna kvíða, reiði, málerfiðleika, vanlíðunar og óæskilegrar hegðunar:

„Í listmeðferðinni vann sonur minn með vanda sinn án þess að vita alltaf beint af því. Hann teiknaði, lék sér, smíðaði og bjó til alls kyns hluti en það var allt vinnsla með vandann án þess að hann gerði sér endilega grein fyrir því. Honum fannst hann aðeins vera að teikna, búa til hluti og leika sér og í kjölfarið varð hann rólegri, leið betur, talaði skýrar og allt fór á betri veg.“ 

Kennari drengsins

„Í kjölfar listmeðferðarinnar átti drengurinn auðveldara með að einbeita sér, hann vann betur í skólanum og varð rólegri, jákvæðari og skýrmæltari.“

Móðir 7 ára stúlku komst svo að orði um listmeðferð sem dóttir hennar hafði lokið:

„… stuttu máli sagt þá gengur allt alveg rosalega vel hjá stúlkunni. Hún er eitt sólskinsbros. En þú spurðir hvað ég hefði hugsað um listmeðferðina og hverju ég hefði átt von á þegar við byrjuðum hjá þér . Ég get sagt þér eins og er að ég vissi í raun ekkert að hverju ég gekk, hafði lítið heyrt um listmeðferð en var ákveðin í að vera jákvæð því að eins og staðan var þá gekk lífið einfaldlega ekki upp. Maðurinn minn hafði meiri trú á lyfjunum sem hún var á en ég aftur á móti á samskiptunum. Hins vegar verð ég að segja að í fyrstu tímunum áttaði ég mig kannski ekki alveg á því hvað var að gerast, fannst hún tala lítið og hafði einhvern veginn búist við að þú værir með einhvern „galdrasprota“ og gætir töfrað fram algjört málæði hjá henni. Hún gæti þá sagt þér á nokkrum tímum hvað væri að. Ég skildi hins vegar fljótt að þannig gengi það ekki fyrir sig og allt hefði sinn tíma. Ég fór að sjá hvernig hún opnaði sig smám saman og allt varð auðveldara. Ég ákvað þá strax að nota allan þann tíma sem þyrfti, ekki þrýsta neinu í gegn. Ég fann líka að ég hafði rosalega gott af því að vera með, tjáskipti okkar urðu miklu auðveldari.
Ef ég yrði spurð hvort ég gerði þetta aftur ef ég lenti í sömu aðstöðu þá er ekki spurning að svarið yrði jákvætt. Ég legði á það ríka áherslu við alla að láta meðferðina taka þann tíma sem þyrfti.“ 

Vitnisburður um framfarir stúlku sem hafði upplifað erfiða reynslu, var óróleg, átti erfitt með að einbeita sér og var félagslega illa stödd við upphaf meðferðarinnar.

„Það hafa orðið gríðarlegar breytingar hjá stúlkunni til hins betra í kjölfar listmeðferðarinnar. Hún er rólegri, hefur betri stjórn á sér og er þroskaðri félagslega.“

Sigurborg Magnúsdóttir deildarstjóri

„Það er meiri ró og friður yfir barninu. Hún er ánægðari og glaðari. Árekstrum við önnur börn fer fækkandi.“

Brynja Aðalbergsdóttir leikskólastjóri

„Stúlkan á fleiri ánægjustundir, er jákvæðari, meira við völd, á auðveldara með að einbeita sér og er minna reið.“

Þröstur Leó J. leiðbeinandi

Höfundaréttur © 2024 Listmeðferð Unnar · Allur réttur áskilin · Óheimilt er að nota efni síðunnar án leyfis.
cartmagnifierchevron-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram