Námskeið haldið á Ítalíu
Unnur Óttarsdóttir mun kenna námskeiðið hjá Art Therapy Italiana í Mílanó á Ítalíu. Námskeiðið er ætlað fyrir listmeðferðarfræðinga sem vinna í skólum. Nánari upplýsingar eru veittar með tölvupósti: formazione.avanzata@arttherapyit.org og í síma: +39 (0)51 644 04 51. Hámarks fjöldi þátttakenda er 15.
Tímasetning:
6. og 7. maí 2023 kl 11.00 - 18.00.
Námskeiðið er ætlað listmeðferðarfræðingum sem starfa í skólum. Þátttakendum gefst kostur á að deila reynslu sinni, tilfinningum og hugmyndum um starf listmeðferðarfræðinga í skólum og fá þannig ný sjónarhorn og öðlast nýjan skilning á málefnum og viðfangsefnum í starfi sínu.
Með listsköpun, að deila með öðrum, samræðum og fyrirlestrum öðlast þátttakendur þekkingu á grunnatriðum aðferða og kenninga námslistmeðferðar. Í námslistmeðferð er námsefni fellt inn í listmeðferð gegnum listsköpun með það að markmiði að auðvelda nám og bæta tilfinningalega líðan, ásamt því að námsörðugleikar eru skoðaðir með tilliti til tilfinningalegra erfiðleika.
Eitt hugtakanna í námslistmeðferð, „skrifmyndir“, verður skoðað nánar, en hér er átt við að teikna myndir af bókstöfum og tölustöfum. Fjallað verður um „skrifmyndastigið“, sem lýsir því stigi þegar börn eru að gera tilraunir með að teikna myndir af letri áður en þau læra að lesa. Kynntar verða aðferðir við gerð skrifmynda. Með því að gefa börnum tækifæri til að vinna með skrifmyndir í námslistmeðferð geta þau endurheimt þá námshæfni sem þau höfðu snemma í lestrarnámsferlinu eða „skrifmyndastiginu“.
Önnur aðferð námslistmeðferðar felst í „minnisteikningu“. Slík teikning hjálpar einstaklingum að leggja á minnið ýmsar staðreyndir sem tengjast námsefni þeirra. Megindleg rannsókn Unnar Óttarsdóttur sýndi að yfir lengri tímabil er að öllu jöfnu fimmfalt auðveldara að muna teiknaðar myndir af orðum en skrifuð orð. Auk þess að aðstoða við minni auðveldar minnisteikning úrvinnslu tilfinninga og erfiðrar lífsreynslu á sama hátt og listsköpunarferlið gerir í listmeðferð.